Innlent

Svona verður veðrið um páskana

Vænlegasta veðrið fyrir skíðaiðkun verður á Austurlandi um páskana samkvæmt veðurspá. Gert er ráð fyrir hálku á vegum næsta mánudag og því ættu ferðalangar að fara varlega í umferðinni.

Vestanátt verður ríkjandi og milt í veðri um allt land næstu daga. Hitinn verður yfir frostmarki á láglendi að minnsta kosti fram á páskadag en þá er gert ráð fyrir kólnandi veðri að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Það verður nú þungbúið og einhver súldarvottur og líklega verður nú kannski mesta rigningin á aðfaranótt páskadags sýnist mér. Það er þá aðallega bundið við landið vestanvert og eitthvað með norðurströndinni en Suð-Austurland ættu að sleppa að mestu leyti við úrkomu," segir Óli Þór.

Og skíðaáhugamenn ættu nú að verða glaðir því besta færið verður væntanlega á Austurlandi.

„Þannig að ég hugsa nú að í Oddskarði verði nú bjart og fallegt. Það getur verið að það verði vindur inn á milli þarna, þannig að það gæti truflað þá eitthvað."

Færðin verður ekki jafn góð í Bláfjöllum og Skálafelli en þar verður lágskýjað, þungbúið og frostlaust.

„Ísafjarðarsvæðið gæti nú á köflum sloppið en það verður suðvestan-átt sem er ekkert sérstaklega hagstæð. Sauðárkrókur, Akureyri, Siglufjörður og Dalvík eru öll á sama svæðinu. Þar ætti að geta orðið á köflum ágætisveður."

Óli Þór gerir ráð fyrir að greiðfært verði á láglendi en bendir þó á að hálkublettir geti myndast á fjallvegum og þoka truflað ökumenn.

„Þeir sem ætla að ferðast til baka á annan í páskum, þá má benda á að þá verði orðið mun stærri svæði þar sem búast má við hálku ef spár ganga eftir. Það er gert ráð fyrir að það kólni það mikið að það fari jafnvel niður fyrir frostmark og þá getur fljótt myndast hálka sérstaklega á þessum vegum sem bleyta er fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×