Innlent

Segir fylkingar takast á í Hæstarétti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstaréttardómarar túlkuðu skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar í embætti hæstaréttardómara sem atlögu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, að réttinum. Þetta fullyrðir blaðamaðurinn Sigríður Dögg Auðunsdóttir í ítarlegri úttekt í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur í verslanir á morgun.

Hún fullyrðir líka að dómararnir hafi talið að Davíð hafi hótað sér í kjölfar öryrkjadómsins svokallaða og þeir hafi óttast pólitísk afskipti. Hæstaréttardómarar tóku sig því saman og mynduðu bandalag gegn bandamönnum Davíðs í réttinum. Æ síðan hafi tvær stríðandi fylkingar tekist á innan Hæstaréttar, Davíðsmenn og Markúsarmenn.

Sigríður fullyrðir í grein sinni að Davíð Oddsson hafi veist að hæstaréttardómurum í kjölfar dóma í afdrifaríkum málum sem vörðuðu íslenska ríkið, Valdimarsdómnum, Vatneyrarmálinu og Öryrkjadómnum svokölluðu. Sagt er frá gagnrýni Davíðs á dómana og því sem hæstaréttardómarar túlkuðu á þeim tíma sem hótun hans í sinn garð. Einnig er fullyrt að Davið hafi hundsað forseta Hæstaréttar, Guðrúnu Erlendsdóttur, í að minnsta kosti ár eftir öryrkjadóminn og til dæmis ekki yrt á hana við opinber tækifæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×