Innlent

Fólksflutningar síst meiri nú en áður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í skýrslunni kemur fram að fólksflutningar séu ekki miklir í sögulegu samhengi.
Í skýrslunni kemur fram að fólksflutningar séu ekki miklir í sögulegu samhengi. mynd/ stefán.
Brottflutningur íslenskra ríkisborgara undanfarin ár er síst meiri en hann hefur verið á öðrum samdráttarskeiðum. Þetta fullyrðir Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, í nýrri skýrslu um mannfjöldaþróun sem hún vann fyrir velferðarráðuneytið. Í skýrslunni er þetta skýrt með því að atvinnuleysi sé mikið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu að Noregi undanskildu. Íslendingar hafi líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir notið góðs af þeim hagfelldu aðstæðum sem ríki í Noregi og hafi sótt þangað í talsverðum mæli.

Þá segir í skýrslunni að brottflutningur erlendra ríkisborgara hafi verið fremur lítill ef tekið sé mið af þeim mikla fjölda sem kom hingað í aðdraganda hruns. Atvinnuleysi sé mikið í öllum löndum Evrópusambandsins og víðast hvar meira en hér á landi. Þrátt fyrir versnandi lífskjör hér á landi kunni að vera að þau séu betri hér en í heimalandinu. Flestir innflytjenda á Íslandi séu frá Póllandi en þar sé atvinnuleysi umtalsvert meira en á Íslandi og atvinnuleysistryggingar lakari. Því sé ekki endilega ástæða fyrir pólska ríkisborgara sem hafa áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi að snúa aftur til Póllands.

„Ljóst er brottflutningur undanfarin þrjú ár hefur breytt mun minna um samsetningu íbúa en aðflutningur áratugarins þar á undan. Íslendingum hefur þannig ekki fækkað meira en verið hefur á öðrum samdráttarskeiðum. Hins vegar er ljóst að þeir útlendingar sem hingað hafa sótt á undanförnum tveimur áratugum hafa breytt miklu um svipmót þjóðfélagsins," segir í skýrslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×