Innlent

Beðið eftir sýnum frá Svíþjóð og niðurstöðum úr geðrannsókn

Gæsluvarðhald yfir karlmanni á þrítugsaldri, sem grunaður er um manndráp í Hafnarfirði í byrjun febrúar, rennur út í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu verður farið fram á áframhaldandi varðhald síðar í dag.

Rannsókn er enn í fullum gangi en lögreglan bíður eftir DNA-sýnum sem fundust á vettvangi en þau voru send til Svíþjóðar til rannsóknar. Þá er einnig beðið eftir niðurstöðu úr geðrannsókn. Rannsókn ætti að ljúka á næstu vikum, að sögn lögreglu.

Í byrjun febrúar kom maðurinn í annarlegu ástandi á lögreglustöðina í Hafnarfirði og greindi frá atviki sem hafði átt sér stað á heimili hans. Framburður hans var óljós en strax var haldið heim til mannsins þar sem kona á fertugsaldri fannst látin en á henni voru áverkar eftir eggvopn. Konan var gestkomandi á heimili mannsins en þau höfðu þekkst um hríð.

Maðurinn er vistaður á Litla Hrauni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×