Innlent

Laminn á Búálfinum og ráðist á mann að tilefnislausu

Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þannig var maður handtekinn um klukkan þrjú í nótt á veitingastaðnum Búálfinum við Lóuhóla í Breiðholti. Sá hafði ráðist á annan gest en ekki er talið að fórnarlambið sé mikið slasað eftir átökin. Gerandinn gistir nú fangageymslur lögreglunnar og verður yfirheyrður í dag.

Lögreglan handtók svo annan karlmann klukkustund síðar, eða um fjögur leytið, á horni Laugavegs og Klapparstígs. Sá var sakaður um að hafa ráðist á annan mann að tilefnislausu. Lögreglan færði manninn í fangaklefa þar sem hann fékk að sofa úr sér og verður rætt við hann þegar það rennur af honum. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar er óvíst með meiðsl þess sem varð fyrir árásinni.

Nokkuð var um innbrot í nótt. Þannig var brotist inn í verslunina Heimilistæki við Suðurlandsbraut í nótt. Bakhurð var spennt upp og glerskápur brotinn þar sem myndavélar voru geymdar. Hafði þjófurinn þýfið á brott með sér en ekki er ljóst hversu mikill skaðinn er.

Eins var brotist inn í verslun við Laugaveg um klukkan þrjú í nótt. Klukkan fjögur var maður svo handtekinn í Bankastræti við að fara inn í bíl og var að sanka að sér hlutum þegar hann var gripinn. Hann var færður í fangaklefa og verður rætt við hann í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×