Innlent

Hrísey verður heimili hamingjusamra landnámshæna

Mynd/Anna Tryggvadóttir
Hugvitssamir Hríseyjingar hyggjast nú koma á fót eggjabúi í eyjunni með hátt í þúsund íslenskum landnámshænum. Hugmyndin er að nýta gamla einangrunarstöð fyrir svín undir hænurnar.

Húsnæði svínabúsins hefur staðið autt síðasta árið eftir að rekstri þar var hætt. Kristinn Frímann Árnason, verðandi hænsnabóndi, segir hugmyndina vera að koma starfseminni á fót í búinu, en hann vonast til að geta komið á bilinu fimm hundruð til eitt þúsund hænum fyrir í húsnæðinu.

„Svo var hugmyndin að nýta matarafganga eyjaskeggja til að fóðra þessar hænur. Þetta verða frjálsar hænur sem ganga inn og út eins og þær vilja. Svo verða eggin seld bæði í eyjunni og markaðsett um allt land. Þau verða auglýst sem hamingjusöm egg úr hamingjusömum hænum."

Kristinn segir egg íslensku landnámshænunnar hreint afbragð.

„Það er til svona vísir að smá eggjabúi í eyjunni, þar sem við höfum séð um svona tuttugu til þrjátíu hænur. Allavega hafa konurnar sagt það vera mjög gott að baka úr þessum eggjum. Miklu betri egg en venjulega. Það er það sem er tekið eftir þegar hænum eru gefnar matarleifar. Svo er þeim gefið venjulegt fóður með. Stærðin á samfélaginu er passleg til að gefa þeim mátulega," segir Kristinn að lokum og hlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×