Innlent

Feður fara sjaldnar í fæðingarorlof

Feðrum sem taka fæðingarorlof heldur áfram að fækka en á milli áranna 2010 og 2011 fækkaði þeim um 10 prósent. Forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs segir marga feður ekki hafa tök á því að fara í fæðingarorlof eftir að hámarksgreiðslur sjóðsins voru lækkaðar.

Fyrir efnahagshrunið árið 2008 hafði feðrum sem tóku fæðingarorlof fjölgað jafnt og þétt. Strax eftir hrun mátti sjá breytingu á. Árið 2009 fór að hægja á orlofstöku feðra og ári síðar að draga úr henni. Nýjar tölur frá Fæðingarolofssjóði sýna að feðrum sem taka fæðingarorlof heldur áfram að fækka en á milli áranna 2010 og 2011 fækkaði þeim um 10%. Á sama tíma fækkaði mæðrum sem tóku fæðingarorlof um 5%.

Vert er að hafa í huga að fæðingum fækkaði nokkuð á þessu tímabili en engu að síður fækkaði þeim feðrum sem tóku fæðingarorlof hlutfallslega mun meira en mæðrum.

„Það vekur náttúrulega athygli að það hafði verið fjölgun foreldra í greiðslu í fæðingarorlofssjóði jafnt og þétt frá árinu 2004 og fram á árið 2009," sagði Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs. „Síðan hefur þetta snúist við og byrjaði að fækka á árinu 2010 og síðan allverulega árið 2011 og þá sérstaklega hjá feðrunum þar sem fækkunin virðist bíta hvar þyngst."

Þá sýna tölur Fæðingarorlofssjóðs að feður taka líka færri daga í fæðingarorlof.

Leó segir breytingar á reglum Fæðingarorlofssjóðs skýra að mestu leyti þessa fækkun feðra sem tóku fæðingarorlof á síðustu árum. Þannig voru hámarksgreiðslur sjóðsins lækkaðar eftir hrun. Þær voru hæstar 535 þúsund krónur í lok árs 2008 í upphafi árs 2010 voru þær orðnar 300 þúsund krónur.

Leó segir marga feður ekki hafa tök á því að fara í fæðingarorlof eftir að hámarksgreiðslur sjóðsins voru lækkaðar.

„Þegar þeir heyra hvaða upphæðir eru í spilunum þá telja þeir sig ekki í rauninni hafa tök á að fara í fæðingarorlof," sagði Leó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×