Innlent

"Fjölmörg krabbameinsvaldandi efni í munntóbaki"

Læknir óttast áhrif mikillar notkunnar ungmenna á nef- og munntóbaki. Um sé að ræða gríðarlega heilspillandi efni sem sannað sé að valdi sjúkdómum. Þá fylgi notkuninni mjög sterk fíkn.

ÁTVR seldi þrjátíu tonn af nef- og munntóbaki á síðasta ári en andvirði þess er um 600 milljónir króna. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að salan hafi aukist um tuttugu prósent frá árinu áður og að hún hafi þrefaldast frá árinu 2002. Til að átta sig á magninu þá væri stæðan þeirra dósa, ef þeim væri staflað upp, sem Íslendingar keyptu í fyrra hærri en Everestfjall.

Þá er ljóst að mun meira er notað af slíku tóbaki á ári hverju því töluvert magn er flutt ólöglega til landsins.

Kannanir sýna að þeir sem nota tóbakið er aðalega ungir strákar. Um fmmtungur stráka á aldrinu 16 til 23 ára nota tóbak í vör.

„Það eru fjölmörg krabbameinsvaldandi efni í munn- og neftóbaki," sagði Sigríður Ólína Haraldsdóttir, lyf- og lungnalæknir. „Það eru þungmálmar og efni sem eru sannarlega krabbameinsvaldandi. Rannsóknir hafa sýnt að það er aukin áhætta á krabbameini í munnholi, í vélinda og í brisi, þetta eru ótvíræðar niðurstöður."

Sigríður segir notkun á munn- og neftóbaki þó ekki eins hættulega og á reyktóbaki.

„Ef maður ber það saman þá er það ekki eins hættulegt en það er krabbameinsvaldandi og það veldur sjúkdómum og það getur valdið dauða," sagði Sigríður.

Sigríður segir lækna á spítalanum enn ekki farna að sjá afleiðingar af notkuninni á spítalanum.

„Þetta eru langtímaáhrif," sagði Sigríður. „Þú kannski þróar með þér briskrabbamein á áratugum. Þannig að þetta er ekki komið fram. Þetta er efni sem þú notar í dag sem getur valdið krabbameini síðar á ævinni."

Sigríður segir ljóst um gríðarlega heilsuspillandi efni sé að ræða fólk verði fljótt háð.

„Fíknin í þetta er svo sterk þetta fer beint upp í heila og það er mjög erfitt að hætta þannig að ég er mjög hrædd við þetta," sagði Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×