Innlent

Þriggja ára og berst við illkynja æxli

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
„Hún er harkan og fæst ekki til að liggja í rúminu" segir móðir Emmu Lindar Aðalsteinsdóttur þriggja ára stúlku sem berst nú við illkynja æxli. Frændi mæðgnanna heldur styrktartónleika í kvöld enda ekki annað hægt fyrir jafn æðislega frænku.

Emma Lind greindist í byrjun marsmánaðar með illkynja æxli í grindarbotni og hefur á skömmum tíma gengið í gegnum þrjár lyfjameðferðir og verið svæfð í tvígang.

„Þriðja lyfjameðferðin var sterkust en við fengum hana ekki einu sinni til að liggja í rúminu í þriðju meðferðinni hún vildi bara leika og vera á gólfinu. Hún er súpersterk. Er það l. fyrir hana. Það er hún algjörlega, hún er harkan gjörsamlega út í gegn," segir Anna Margrét, móðir Emmu Lindar.

Og búist er við að þessi litla hetja verði í meðferðum þar til í lok maí. „Þá fer hún mjög líklega í aðgerð til að taka það sem eftir er og svo er eftirmeðferð."

Foreldrar Emmu Lindar eru einungis 22 ára. Faðirinn hefur verið í fríi frá vinnu síðan hún greindist og Anna Margrét er í fæðingarorlofi en systir Emmu Lindar, Alba Sædís, er fimm mánaða.

Þetta hlýtur að vera kostnaðarsamt?

„Já, þetta er mikill aukakostnaður sem maður bjóst ekki við," svarar Anna Margrét.

Frændi mæðgnanna ákvað þegar Emma Lind greindist að styrkja fjölskylduna og í kvöld heldur hann tónleika á Manhattan í Keflavík þar sem Kalli Bjarni Idolstjarna kemur fram. Aðgangseyrir er 1.500 kr og rennur hann óskiptur til Emmu Lindar og fjölskyldu hennar.

„Ég bjó hérna heima hjá þeim um tíma og var rosalega mikið með Emmu inni í herbergi að leika. Þá ákvað ég því mér þykir svo vænt um hana að reyna að gera eitthvað gott. Þetta er æðisleg stelpa," segir Guðmundur Ingi Vésteinsson, frændi Emmu Lindar.

Fyrir þá sem ekki komast á tónleikana en hafa áhuga á að styrkja Emmu Lind og fjölskyldu hennar geta millifært á reikning 515-14-407100, Kt.130908-2330. Anna Margrét segist finna fyrir miklum stuðningi.

„Alveg hiklaust, ég trúði ekki að ég ætti þetta fólk að," segir Anna Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×