Innlent

Karl segir siðferðisgildin ekki horfin úr þjóðarvitundinni

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. MYND/Tru.is
Hátíðarguðsþjónustum er nú að ljúka um allt land, en í Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, predikaði í Dómkirkjunni kl. átta í morgun. Þar sagði hann gömlu, góðu siðferðisgildin ekki horfin úr vitund þjóðarinnar.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, flutti hátíðarpredikun sína í morgun og gerði upprisuna að umtalsefni sínu. Hann sagði kristindóminn grundvallast á henni. Hún væri raunveruleiki í heiminum. Kristin trú sé ekki skoðanir eða álit á hinu og þessu sem fangar hug þeirra sem hugsa og skrafa, blogga og blaðra hverju sinni.

„Hún stendur og fellur með sannleiksgildi þeirrar fréttar sem sögð er um alla jörð í dag," sagði Karl. „Og endurómar fregnina sem hljómaði við opna, tóma klettagröf í Jerúsalem hinn fyrsta páskadag."

Þá talaði Karl um skírnarathöfn á heimili í Reykjavík og spurði hvaða sögu það segði að þrátt fyrir skefjalausan áróður gegn kirkjunni, hinum kristna sið og trúarhefðum, þá lifi flestar fjölskyldur í landinu slíkar helgistundir um ársins hring. Flest ung börn væru enn borinn til skírnar og nú í vor hafi mikill meirihluti unglinga á 14. aldurási fermst, þrátt fyrir andróðurinn og svívirðingarnar sem þau þurfi nú einatt að þola frá umhverfinu, eins og biskup orðaði það.

Hann sagði því trúna og hinn kristna sið virðast vera ómissandi þátt í lífi þorra fjölskyldna í landinu. Gömlu góðu siðferðisgildin væru ekki horfin út vitund þjóðarinnar og því fari fjarri að hér hafi orðið siðrof.

„Kristur er upprisinn," sagði Karl. „Það er góða fréttin sem gefur fyrirheit um návist og handleiðslu í nepju og hretum lífsins og skuggalendum sorgar og dauða, um huggun og sigur í óförum öllum. Tökum okkur stöðu á þessum traustu fyrirheitum, og leitumst við að verða sjálf hluti af góður fréttinni, með viðmóti okkar og orðum, með líferni, gildismati, breytni."

Karl sagði kirkjuna vera ein grunnstoða hins góða mannúðar-samfélags. Stór hluti þjóðarinnar haldi enn tryggð við hinn kristna sið, þrátt fyrir allt, og vilji sjá kirkjuna og hið kristna uppeldi í trú og sið lifa og dafna með þjóðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×