Innlent

Erfið staða hjá Samkeppniseftirlitinu

Fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins hafa dregist saman um átta prósent á sama tíma og málafjöldi hefur aukist um áttatíu prósent. Þessi staða gengur ekki upp til lengdar, segir forstjóri eftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið hefur haft mikið að gera undanfarin fjögur ár, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í ársriti eftirlitsins sem kom út í lok mars. Þar kemur m.a. fram að málafjöldi hefur á aukist um áttatíu prósent á fjórum árum, farið úr 80 málum á árinu 2008 og í 180 mál á árinu 2011.

Þá segir orðrétt í ársritinu: Með niðurskurði og sparnaði í fjárveitingum til samkeppniseftirlits verða stjórnvöld af augljósu tækifæri til þess að bæta hag almennings og flýta endurreisn atvinnulífsins og efnahagsbata.

Páll Gunnar Pálsson segir það mikla álag sem á eftirlitinu hvílir ekki ganga upp til lengdar.

„Það sem að við gerum, er að spila eins vel og við getum úr þeim fjármunum og lagaheimildum sem við höfum. Það er ljóst að það er hægt að gera meira og það þarf að gera meira. Það er lykilatriði að flýta efnahagsbata."

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að Samkeppniseftirlitið hafi staðið sig vel að undanförnu, meðal annars með því að fylgjast grannt með ítökum bankanna í atvinnulífinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×