Innlent

"Hafði ekki hugmyndaflug í að þetta gæti orðið jafn slæmt"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
„Ég hafði ekki hugmyndaflug í að þetta frumvarp gæti orðið jafn slæmt og það lítur út fyrir að vera fyrir útgerð, fiskvinnslu og sölustarfsemi og þar með atvinnustarfsemi í landinu," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og aðaleigandi Samherja um frumvörp sjávarútvegsráðherra til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða annars vegar og veiðigjalds hins vegar.

Eins og greint hefur verið frá gerir frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjald ráð fyrir tvíþættu veiðigjaldi. Annars vegar almennt veiðigjald, sem er 8 krónur á hvert kíló og svo sérstakt veiðigjald sem verður 70 prósent af samanlögðum hagnaði á hvert kíló í sjávarútveginum að frádregnum kostnaði og almennu veiðigjaldi, sem mun renna til ríkisins. Útgerðarmönnum finnst þetta allt of hátt. Og eyðileggi svigrúm þeirra til nauðsynlegra fjárfestinga í atvinnugreininni.

Enginn stjórnarþingmaður kíkt í heimsókn

Þorsteinn Már, sem var gestur Magnúsar Halldórssonar í nýjasta þættinum af Klinkinu, furðar sig á því að enginn af stjórnarþingmönnunum sem vilji gera breytingar á lagaumhverfi fiskveiða hafi heimsótt Samherja og séð hvernig fyrirtækið starfar.

„Ég sakna þess að það hefur, af núverandi stjórnarþingmönnum, enginn heimsótt okkur og skoðað hvað við erum að gera. Mér finnst ótrúlegt að það sé hægt að ræða fiskveiðistjórnunarkerfið og dæma okkur norður og niður og virða ekki þá þekkingu sem hér er," segir Þorsteinn Már.

Sjá má myndskeið þar sem Þorsteinn ræðir þessi mál hér fyrir ofan. Nýjasta þáttinn af Klinkinu í heild sinni má sjá hér. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×