Innlent

Má búast við miklum vindhviðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er hætt við að sjórinn geti orðið grár.
Það er hætt við að sjórinn geti orðið grár.
Búast má við hviðum allt að 30-40 m/s á Kjalarnesi og undir Hafnarfalli í kvöld og fram á nóttina, eftir því sem Veðurstofan segir. Einnig má gera ráð fyrir miklum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit. Versnandi veður á fjallvegum um vestan- og norðvestanvert landið seint í kvöld, hríðarveður og slæmt skyggni verður fram á nóttina um leið og skil lægðar ganga yfir.

Það er hálka og hálkublettir víða um landið, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hálkublettir eru á Sandskeiði og hálka og skafrenningur á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir eru í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýsla.

Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, hálka eða hálkublettir víðast hvar á öðrum leiðum. Á Vestfjörðum er flughálka frá Bjarnafirði að Gjögri. Hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir á flestum leiðum og hálka á Vatnsskarði. Á Norðausturlandi er flughálka á Hólasandi. Hálka er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum annars eru hálkublettir víða.

Á Austurlandi eru hálkublettir á Breiðdalsheiði en aðrar leiðir eru greiðfærar. Á Suðausturlandi er allar helstu leiðir greiðfærar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×