Fótbolti

Hræðileg markvarðarmistök komu Gana í undanúrslitin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gana vann 2-1 sigur á Túnis í framlengdum leik í 8-liða úrslitum Afríkukeppninnar í gær. Þá duttu heimamenn frá Gabon úr leik gegn Malí í vítaspyrnukeppni að loknu 1-1 jafntefli.

Aymen Mathlouthi, markvörður Túnis, var skúrkurinn þegar þjóð hans datt úr leik í Afríkukeppninni í Gabon og Miðbaugs-Gíneu í gærkvöldi. Undir engri pressu missti hann fyrirgjöf fyrir fætur Andre Ayew sem sendi knötinn í tómt markið. Markið kom í fyrri hálfleik framlengingar og reyndist sigurmarkið í leiknum.

Gana komst yfir snemma leiks þegar fyrirliðinn John Mensah skoraði með skalla. Túnismenn, fulltrúar Norður-Afríku í átta-liða úrslitum, jöfnuðu metin skömmu fyrir hálfleik. Allt var í járnum og þurfti að framlengja leikinn þar sem úrslitin réðust á fyrrnefndum mistökum markvarðar Túnismanna.

Gana mætir Sambíu í undanúrslitum á miðvikudag. Sambía lagði hina gestgjafana frá Miðbaugs-Gíneu 3-0 á laugardag.

Gabon-menn, sem halda keppnina með Miðbaugs-Gíneu, duttu úr leik í vítaspyrnukeppni að loknu 1-1 jafntefli gegn Malí. Heimamenn komust yfir snemma í síðari hálfleik við mikinn fögnuð áhorfenda. Malí tókst að jafna skömmu fyrir leikslok. Ekkert var skorað í framlengingu og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni sem má sjá hér.

Malí mætir Fílabeinsströndinni í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×