Innlent

Nýja þyrlan hvorki með nætursjónauka né hitamyndavél

Höskuldur Kári Schram skrifar
Nýja leiguþyrla landhelgisgæslunnar er illa útbúin og hefur takmarkaða getu til að sinna björgunarstörfum að nóttu til. Í vélinni er hvorki nætursjónauki né hitamyndavél.

Þyrlan sem er af gerðinni Super Puma kom til landsins í gær en hún hefur fengið nafnið TF-SÝN. Hlutverk hennar verður að sinna eftirlits- og björgunarstörfum hér við land en í þyrluna vantar hins vegar mikið af þeim búnaði sem er nauðsynlegur til þess að hún geti sinnt þessu hlutverki að fullu.

„Helsta vandamálið við þessa vél er að hún er ekki enn útbúin til leitar, björgunar og sjúkraflutninga. Þetta er farþegavél sem slík en hún hefur hins vegar ýmsa kosti. Hún er öflug, með stóra mótora og afísingarbúnað þannig að við komumst á milli staða í öllum veðrum," segir Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni.

Vélin er tuttugu ára gömul og hefur takmarkaða getu til að sinna björgunarstörfum að nóttu til.

„Það er ekki búnaður fyrir nætursjónauka, það er ekki hitamyndavél eins og er í hinum vélunum okkar. Þannig að við hífingar úti á ballarhafi í svartamyrkri nýtist hún ekki nema að skip sem hífum úr sé þeim mun stærra til að sjá hindranir."

Ein þyrla gæslunnar TF-LÍF er í reglubundinni skoðun í Noregi en hún kemur aftur til landsins í apríl. Þangað getur gæslan ekki sent björgunarþyrlur lengra en tuttugu mílur á haf út.

Sumir myndu segja að svona þyrla væri að veita okkur falsk öryggi. „Hún gerir það sem hún er hönnuð fyrir. Hún er vissulega að veita okkur öryggi en ekki við allar aðstæður, en við flestar aðstæður. Í dagsbirtu er hún að gera fína hluti," segir Björn Brekkan að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×