Innlent

Næstu kosningar snúast um trúverðuleika til að framfylgja loforðunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lilja Mósesdóttir er formaður Samstöðu
Lilja Mósesdóttir er formaður Samstöðu
Nýtt stjórnmálaafl, Samstaða, var kynnt til sögunnar í dag. Formaður flokksins er Lilja Mósesdóttir fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna.

„Flokkurinn var stofnaður til að koma til móts við þá sem svíður aukið misrétti á Íslandi eftir hrun, misrétti milil þeirra sem að skulda og þeirra sem að eiga. Við viljum að skuldir heimilanna verði leiðréttar og að við stokkum upp lífeyrissjóðskerfið í leiðinni þannig að við höfum hér öflug almannatryggingakerfi sem tryggir fólki lágmarkslífeyri og síðan lífeyrissjóði sem ávaxta viðbótalífeyri," segir Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu.

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að stór hluti kjósenda sé að kalla eftir frekari valkostum í komandi kosningum.Fjórflokkurinn á undir högg að sækja og sóknarfærin eru mörg fyrir ný framboð.

„Ég held að næstu kosningar snúist ekki jafn mikið og oft áður um hver býður best, heldur hvaða flokkur hefur mestan trúverðugleika hjá kjósendum. Trúverðuleika til að framfylgja kosningaloforðunum," segir Lilja.

Agnes Arnardóttir og Sigurður Þ. Ragnarsson eru varaformenn flokksins.

Kemur þessi flokkur með nýja og ferska vinda inn í íslensk stjórnmál? „Við getum sagt að það þurfi storma í íslensk samfélag til þess að ná að taka til, hreinsa til og lagfæra það sem hér hefur verið í ólagi. Og sá stormur verður að ganga yfir eins og aðrir stormar," segir Sigurður Þ. Ragnarsson, oft kallaður Siggi Stormur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×