Innlent

Pólskumælandi ráðgjafi kominn til starfa hjá Reykjavíkurborg

Joanna Marcinkowska.
Joanna Marcinkowska.
Joanna Marcinkowska hefur verið ráðin sem pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda hjá Reykjavíkurborg. Joanna starfar á þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar á Höfðatorgi og mun aðstoða og veita upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar á pólsku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Pólverjar eru fjölmennastir innflytjenda í borginni og telja um 3.300 manns eða um 30% af innflytjendasamfélaginu í Reykjavík. Ný könnun meðal pólskra félagsmanna stéttarfélagsins Eflingar leiðir í ljós að einungis þrettán prósent þeirra telja sig geta haldið uppi samræðum á íslensku. Aðstoð við þennan hóp er því brýn með það fyrir augum að auðvelda þeim þátttöku í íslensku samfélagi. Nýja ráðgjafastaðan er liður í að renna enn styrkari stoðum undir þjónustu við pólska innflytjendur í Reykjavík.

Stofnað hefur verið nýtt símanúmer þar sem Joanna veitir upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar á pólsku. Símanúmerið er: 4 11 11 40 og opnað verður fyrir þjónustuna á föstudaginn kemur þann 10. febrúar.

Reykjavíkurborg rekur nú þegar vefsíður þar sem veittar eru allar grunnupplýsingar um þjónustu borgarinnar á pólsku og ensku og fréttaþjónustu á sömu tungumálum.

Slóðin á pólska vefsvæðið er http://www.reykjavik.is/polska




Fleiri fréttir

Sjá meira


×