Fótbolti

Real enn ríkasta knattspyrnufélag heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Real Madrid er efst á lista yfir ríkustu knattspyrnufélög heims sjöunda árið í röð, samkvæmt árlegri úttekt Deloitte. Barcelona og Manchester United koma næst.

Real getur jafnað met Manchester United á næsta ári en síðarnefnda liðið var efst á þessum lista í átta ár í röð. Ekkert breyttist í röð sjö efstu liðanna frá síðasta ári en Liverpool féll um eitt sæti og er nú í því níunda.

20 lið eru á listanum og eru öll úr fimm stærstu deildakeppnum Evrópu. England á sex lið, Ítalía fimm, Þýskaland fjögur, Spánn þrjú og Frakkland tvö. Níu lið af þessum 20 öfluðu meiri tekna í ár en í fyrra.

Manchester City á vellauðuga eigendur sem hafa dælt peningum inn í félagið en liðið er í tólfta sæti á listanum að þessu sinni og fellur niður um eitt sæti á milli ára.

Real Madrid og Barcelona bera höfuð og herðar yfir önnur lið á þessum lista og eru árlegar tekjur félaganna nálægt því að rjúfa 500 milljóna evra múrinn. Hagnaður Real Madrid jókst um rúmar 40 milljónir evra á milli ára en Barcelona um 50 milljónir.

Tekjulisti Deloitte:

1. Real Madrid 479,5 milljónir evra

2. Barcelona 450,7

3. Manchester United 367

4. Bayern München 321,4

5. Arsenal 251,1

6. Chelsea 249,8

7. AC Milan 235,1

8. Inter 211,4

9. Liverpool 203,3

10. Schalke 202,4

11. Tottenham 181

12. Manchester City 169,6

13. Juventus 153,9

14. Marseille 150,4

15. AS Roma 143,5

16. Dortmund 138,5

17. Lyon 132,8

18. Hamburg 128,8

19. Valencia 116,8

20. Napoli 114,9




Fleiri fréttir

Sjá meira


×