Innlent

Trylltur ökumaður boðaður í skýrslutöku - vitni búið að gefa sig fram

Vegareiði er reyndar heimsþekkt vandamál. Athugið að þessi mynd er sviðsett.
Vegareiði er reyndar heimsþekkt vandamál. Athugið að þessi mynd er sviðsett.
Maðurinn sem braut rúðu á bíl fatlaðs manns í Hafnarfirði á fimmtudaginn í síðustu viku, hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá lögreglunni í Hafnarfirðinum. Þá gaf vitni sig fram við lögreglu í gær sem sá herlegheitin.

Það var á fimmtudaginn sem maðurinn var að bíða við Hringtorg við N1 á Keflavíkurvegi í Hafnarfirði. Hann hringdi í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í gær og lýsti hryllilegri reynslu sinni. Hann lýsti því hvernig ökumaður á undan honum hefði ekið undarlega.

Viðmælandi Reykjavík Síðdegis, sem er fatlaður og var með litla dóttur sína í bílnum, flautaði á bílinn sem var fyrir framan hann. Ökumaðurinn brást þá hinn versti við, fór út úr bílnum, sparkaði af krafti í hurð ökumannsins og kýldi því næst í gegnum rúðuna.

Glerbrotum rigndi yfir ökumanninn og dóttur hans, sem var skelfingu lostin.

Maðurinn snéri svo aftur í bílinn sinn og ók af stað. Sá sem varð fyrir árásinni fylgdi honum þá á eftir og náði bílnúmerinu. Þegar ofsareiði ökumaðurinn varð hans var, snéri hann bíl sínum við, og elti ökumanninn, sem ók í ofboði heim til sín.

Manninum var verulega brugðið þegar hann ræddi við útvarpsmenn Reykjavík Síðdegis í gær. Þá kvartaði hann yfir seinagangi lögreglunnar í málinu.

Að sögn Ólafs G. Emilssonar, stöðvarstjóra og aðstoðaryfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, hefur ofsareiði ökumaðurinn verið boðaður í skýrslutöku. Hann segir það eðlilegan farveg slíkra mála, náist viðkomandi ekki á vettvangi.

Hann segir hinn grunaða ekki góðkunningja lögreglunnar. Ökumaðurinn, sem varð fyrir árásinni, hélt því fram að sá ofsareiði hefði verið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.

„Málsatvik ættu að liggja ljós fyrir," segir Ólafur sem bætir við að ef maðurinn mætir ekki í skýrslutöku verður brugðist við því með viðeigandi hætti. Málið sé annars í rannsókn og ekkert sé vitað um ástand ökumannsins.

Ólafur hvetur ökumenn til þess að sýna stillingu í umferðinni, enda sérstaklega vond færð þessa dagana. Hann segist ekki hafa fengið annað eins mál á sitt borð eftir að færð fór snarversnandi í lok nóvember.


Tengdar fréttir

Hlustandi á Bylgjunni sagði frá fólskulegri árás í umferðinni

"Hún var í bílnum og glerbrotin hrundu yfir hana, það blæddi úr mér og hún hágrét og öskraði," segir hlustandi á Bylgjunni sem hafði samband við þáttinn Reykjavík síðdegis í dag og sagði frá árás sem hann varð fyrir um hábjartan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×