Innlent

Lekir PIP púðar fjarlægðir - ríkið borgar

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Konur sem fengu ígrædda PIP-brjóstapúða á árunum 2000 - 2010 og eru sjúkratryggðar hér á landi munu fá bréf á næstu dögum þar sem þeim verður boðið að koma sér að kostnaðarlausu í ómskoðun á brjóstum til að kanna ástand púðanna. Reynist púðar lekir tekur ríkið þátt í kostnaði við að fjarlægja þá samkvæmt almennum reglum um greiðsluþátttöku hins opinbera vegna aðgerða. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti aðgerðaáætlun heilbrigðisyfirvalda vegna þessa máls á fundi ríkisstjórnar í dag.



Samkvæmt minnisblaði frá velferðarráðuneytinu er áætlaður heildarkostnaður við hverja aðgerð um 200 þúsund krónur og mun ríkið standa straum af kostnaðinum að undanskildu komu- skoðunar- og aðgerðargjaldi samkvæmt gjaldskrá sjúkratrygginga. Það gjald nemur 29.500 krónum og greiða konurnar það sjálfar.



Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er það fyrst og fremst einn lýtalæknir hér á landi, sem jafnframt er innflytjandi PIP-brjóstapúðanna, sem hefur notað þá í aðgerðum við brjóstastækkanir á læknastofu sinni. Þeir hafa hins vegar ekki verið notaðir í aðgerðum sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum, til dæmis vegna uppbyggingar brjósta í kjölfar krabbameinsmeðferðar.



Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að afla lögfræðiálits meðal annars varðandi ábyrgð vegna innflutnings og dreifingar PIP-brjóstapúðanna og réttarstöðu hlutaðeigandi kvenna. Ráðuneytið hefur leitað til ríkislögmanns við undirbúning málsins. Þegar lögfræðiálit liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvort ríkið geri kröfu um endurgreiðslu kostnaðar sem ríkið tekst á hendur vegna þessa máls.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×