Innlent

Hleraður í hálft ár

Annar höfuðpauranna í stærsta fíkniefnamáli síðasta árs var hleraður af lögreglu í rúmt hálft ár áður en hann var handtekinn í október. Hann neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Maðurinn, Geir Hlöðver Ericsson, sem er ákærður fyrir innflutning á tæpum tíu kílóum af amfetamíni, rúmlega átta þúsund e-töflum, tvö hundruð grömmum af kókaíni auk steralyfja sem komu með vöruflutningaskipi til Straumsvíkur frá Hollandi í október á síðasta ári.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst byrjaði lögreglan að hlera bæði síma og heimili Geirs Hlöðvers í mars á síðasta ári allt þar til hann var handtekinn í lok október. Fram hefur komið hjá lögreglu að þrír rannsóknarlögreglumenn hafi unnið að málinu frá því snemma á síðasta ári en þeir munu hafa setið á vöktum við að hlera bæði heimili og síma Geirs.

Í umræddum hlerunum kemst lögreglan á snoðir um fyrrnefndan fíkniefnainnflutning, og nafn Sævars Sverrissonar blandast inn í málið. Hann er talinn vera hinn höfuðpaurinn í málinu. Sævar segist hafa verið svikinn því einungis hafi verið rætt um að flytja inn stera, og játaði hann þann hluta málsins í morgun en neitaði öðrum ákæruliðum.

Sævar hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn þann 10.október en Geir var handtekinn nokkrum dögum síðar. Fjórir aðrir eru ákærðir í málinu en alls er um níu ákæruliði að ræða.

Aðalmeðferð fer fram þann 16.febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×