Innlent

Hálka og slæm færð á landinu

Vegagerðin varar við hálku eða flughálku um allt land og biður vegfarendur á lengri leiðum að athuga að færð breytist mjög hratt og því gott að fylgjast með færð og ástandi á leiðinni.

Það eru hálkublettir á Sandskeiði og á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Flughálka er frá Reykholti að Gullfoss og hálka á öðrum leiðum. Flughálka er á Suðurstrandar-og Krýsuvíkurvegi. Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði. Á Snæfellsnesi er flughálka sem og í uppsveitum Borgarfjarðar. Hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum. Á Vestfjörðum er flughálka á Barðaströnd, Dýrafirði og víðar. Á öðrum leiðum er hálka en þó snjóþekja og éljagangur á Þröskuldum. Áframhaldandi hálka er svo á Norðurlandi og sumstaðar éljagangur. Flughált er á útvegum. Norðaustanlands er víða snjóþekja og éljagangur. Á Austurlandi er hálka og skafrenningur á Fjarðarheiði og Fagradal en hálka, snjóþekja og sumstaðar flughálka á öðrum leiðum. Suðaustanlands er hálka.

Þá segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að tilkynnt hafi verið um að minnsta kosti fimm hálkuslys í nótt, mis alvarleg. Flughált er víða á götum og gangstéttum borgarinnar nú í morgun og því rétt að fara varlega.

Loks verða truflanir á umferð um Vesturlandsveginn, en í dag er verið að steypa yfirbyggingu göngubrúar yfir Vesturlandsveg í Mosfellsbæ. Milli klukkan tíu og fjögur verður lokað fyrir umferð undir brúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×