Innlent

75 daga einangrun ár hvert

Trékyllisvík í Árneshreppi að sumri. Sveitin er tæplega svona blómleg nú þegar veturinn ríður yfir.
Trékyllisvík í Árneshreppi að sumri. Sveitin er tæplega svona blómleg nú þegar veturinn ríður yfir.
Íbúi í Árnesi við Trékyllisvík segist vera algjörlega einangraður í tæplega þrjá mánuði á ári þegar vegagerðin ryður ekki vegarkafla á Vestfjarðakjálkanum. Hann er flughræddur og kann því illa að geta ekki keyrt út fyrir sveitina þegar á þarf að halda.

Árneshreppur er ein afskekktasta byggð landsins. Þar búa vel á annan tug fjölskyldna og þar kvíðir fólkið 6. janúar ár hvert. Ástæðan er sú að frá þeirri dagsetningu og næstu 75 daga er vegurinn þangað ekki ruddur, en Árneshreppur er eina sjálfstæða sveitarfélag landsins sem fellur undir svokallaða G-reglu um þjónustustig snjómoksturs, að því er fréttavefurinn strandir.is greinir frá.

Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir býr í Árnesi, en að hennar sögn er rutt innansveitar og að flugvellinum að Gjögri, en hins vegar ekki frá Gjögri og inn í Bjarnarfjörð.

„Við erum bara innilokuð," segir hún og segir að fólkið þar vilji að einangruninni sé aflétt, en hins vegar sé iðulega reynt að stinga upp í íbúana með því að þeir hafi þó aðgang að flugi, sem í ofánalag er ríkisstyrkt.

Íbúunum þykir blóðugt að vegagerðin sjái sér ekki fært að ryðja þennan vegarkafla allan ársins hring. Að hennar sögn getur hreppurinn þó farið fram á svokallaðan helmingamokstur, en þá greiðir mótaðilinn helming í mokstrinum á móti vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×