Innlent

Blóðugir dagar í Nígeríu

Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu.
Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu. Mynd/AFP
27 manns hafa látið lífið í Nígeríu í þremur árásum á jafnmörgum dögum. Árásirnar hafa beinst gegn kristnu fólki á leið til eða frá helgihaldi. Forseti landsins hefur lýst yfir neyðarástandi vegna árásanna.

Árásirnar urðu í bæjunum Mubi og Gombe sem eru í norðausturhluta landsins. Sú fyrsta varð þegar skotið var á kirkju meðan á messu stóð á fimmtudaginn. Þá dóu sex manns. Næsta árásin varð daginn eftir þegar skotið var á þá sem syrgðu fórnarlömbin úr fyrri árásinni. Þá létust 18 manns. Aðfararnótt laugardagsins braust loks út skotbardagi í bænum Mubi.

Öfgahópurinn Boko Haram hefur lýst því yfir að þeir beri ábyrgð á árásunum. Hópurinn hefur undanfarið staðið fyrir vikulegum árásum á kirkjur og lögreglustöðvar.

Á síðasta ári tók hin mannskæða starfsemi samtakanna mikinn kipp og olli dauða 550 manna. Hápunkturinn voru samhæfðar árásir á jóladag um alla Nígeríu sem ollu dauða 39 manns á einu bretti.

Fólk hefur litla trú á því að ríkisstjórnin geti tekist á við samtökin. Það gæti leitt til þess að hundruðir manna flýi heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×