Innlent

Segir falsanir í skýrslu um Vaðlaheiðargöng

Mynd úr skýrslunni
Jón Þorvaldur Heiðarsson, fræðimaður við Háskóla Akureyrar, sakar Pálma Kristinsson um falsanir í skýrslu sinni um Vaðlaheiðargöng.

Pálmi tekur upp texta Jóns í skýrsluna en breytir orðalaginu í tilvitnuninni á fleiri en einum stað. Alkunna er að slíkt er bannað í vísindasamfélaginu að sögn Jóns.

Jón segir Pálma svo draga ranga ályktun af texta sínum eftir að orðalaginu hefur verið breytt og lesendum þannig talin trú um að hann snúist um eitthvað allt annað en hann raunverulega gerir.

Hér að neðan fer hluti af tilkynningu sem Jón sendi fréttastofu vegna málsins. (Textinn úr skýrslu Pálma er feitletraður).

Dæmi úr skýrslu Pálma blaðsíðu 62:

Árið 1998 kostaði bensínlítrinn um 70 kr. og því samsvaraði 1.000 kr. í veggjald um 14 lítrum af bensíni. Reiknaður sparnaður pr. km í vegstyttingu nam því 33 lítrar/100 km. Hafi vegfarendur um VHG (Vaðlaheiðargöng) verða tilbúnir að greiða sem svaraði 0,33 lítrum/km fyrir hvern sparaðan km árið 1998 þá ættu þeir að vera tilbúnir að greiða sem svarar 5 lítrum af bensíni eða um 1.100 kr fyrir að aka um VHG."

Hér að neðan er síðan textinn eins og hann er á 640.is (búið er að strika undir þann hluta textans sem Pálmi breytir):

Á þessum tíma kostaði bensínlítrinn um 70kr og því samsvaraði 1.000 kr í veggjald um 14 lítrum af bensíni. Reiknað á sparaðan km var gjaldið þriðjungur úr lítra. Ef vegfarendur um Vaðlaheiðargöng verða einnig tilbúnir að greiða þriðjung úr bensínlítra fyrir hvern sparaðan km þá ættu þeir að vera tilbúnir að greiða sem svarar 5 lítrum af bensíni eða um1.100 kr fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng."

Hér virðist lykilatriði að setja inn 33 lítra/100km. Tilgangur breytinganna virðist fyrst og fremst vera til að afvegaleiða lesendur og telja þeim trú um að textinn snúist um eitthvað ökutæki sem eyðir 33l/100km. En textinn snýst ekkert um það heldur um það að skoða hvernig veggjald á sparaðan km væri nú ef það hefði fylgt verðlagi á bensíni. Texti Pálma heldur hins vegar þannig áfram eftir hina ,,beinu" tilvitnun:

Það að fjórði hver maður hafi verið tilbúinn að aka um á bíl á þessum tíma sem eyddi 33 lítrum á hundraði þegar bensínið kostaði 70 kr þýðir ekki að fjórði hver maður sé tilbúinn til að aka svo eyðslufrekum bíl í dag þegar bensínið kostar 230 kr/lítra. Svona reiknikúnstir eru marklausar og leiða menn eingöngu á villigötur."

Eins og fréttastofa RÚV hefur greint frá gerði Pálmi Kristinsson umrædda skýrslu um Vaðlaheiðargöng þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að forsendur stjórnvalda fyrir byggingu Vaðlaheiðarganga standist ekki og göngin muni ekki standa undir sér.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við Háskóla Akureyrar. Hann skrifaði mastersritgerð í hagfræði um Vaðlaheiðargöngin. Hann hefur mikið pælt í samgöngumálum og metið fjölda af jarðgöngum.


Tengdar fréttir

Forsendur stjórnvalda um Vaðlaheiðargöng óraunhæfar

Pálmi Kristinsson, verkfræðingur hefur tekið saman skýrslu um Vaðlaheiðargöng. Þar byggir hann á eigin útreikningum og athugunum á kostnaðarþáttum, tekjuþáttum og fjármögnun ríkisins auk þess sem stuðst er við fyrirliggjandi forsendum stjórnvalda. Meginniðurstöður skýrslunnar eru að innheimta veggjalda muni ekki ná að standa undir öllum kostnaði við Vaðlaheiðargöng. Einnig býst hann við að endanlegur kostnaður við göngin verði hærri en gert er ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×