Innlent

Óttast um framtíð íslenskrar bóksölu

Formaður félags íslenskra bókaútgefanda óttast að nýjum eigendum Pennans verði ekki umhugað um að selja íslenskar bækur heldur flíspeysur og boli. Hann óttast að einn af hornsteinum íslenskrar bókamenningar glatist.

Eignabjarg, dótturfélag Arion Banka auglýsti allt hlutafé í Pennanum til sölu í vikunni. Verslanir Pennans eru Eymundsson, Penninn, Griffill og Islandia en Penninn selur í dag allt frá skrifstofuhúsgögnum til minjagripa. Félag íslenskra bókaútgefanda hefur hins vegar áhyggjur af því að í höndum nýrra eigenda muni áherslur Pennans sem íslenskan bóksala muni breytast.

„Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af því að nýir eigendur Pennans séu kannski ekki svo umhugað að selja íslenskar bækur, heldur eitthvað allt annað, til dæmis flíspeysur eða boli. Staðreyndin er sú að Penninn eins og hann er rekinn núna er lang stærsti söluaðili íslenskra bóka á heils árs basis og þetta bóksölukerfi sem þeir hafa byggt upp skiptir alla þá sem vinna við bókaútgáfu gríðarlega miklu máli," segir Kristján B. Jónasson, formaður íslenskra bókaútgefanda.

Hann segir því mikilvægt að Penninn haldi áfram að selja íslenskar bækur.

„Þetta er einn af hornsteinum íslenskrar bókmenningar. Það hljómar undarlega, en að fólk hafi aðgang að bókum allt árið í kring í bókabúðum en ekki bara þrjár fjórar vikur á ári hliðiná kæliborðinu í Bónusi skiptir raunverulega mjög miklu máli. Það skiptir máli bæði fyrir fyrirtækin í bókaútgáfu og það að við séum bókmenntaþjóð og höfum að gang að lesefni á íslensku."

Hann segir því íslenska bókmenningu ekki halda áfram að vera það sem hún er í dag nema að fólk hafi aðgang að íslenskum bókum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×