Innlent

Saltað í Kópavogi og Hafnarfirði

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður.
Á laugardaginn var hafin vinna við að salta götur sem og að salta og sanda stíga en mikil hálka var í Hafnarfirði. Einnig var borinn sandur í þær brekkur sem voru illfærar svo og einstaka götur.

Um helgina var einnig byrjað að hefla og losa klaka í þeim götum sem aðstæður voru með hvað versta móti. Haldið verður áfram þeirri vinnu núna í vikunni en bílar og aðrar hindranir eru þó aðeins að tefja verkið.

Í dag var haldið áfram að hálkuverja stíga og var áfram unnið að snjóhreinsun og hálkuvörnum gatna- og gönguleiða en unnið er að þessu í samræmi við stefnumótun bæjarins sem finna má á heimasíðu bæjarins www.hafnarfjordur.is

Hjá Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar, Norðurhellu 2, geta íbúar náð í sand til að bera á einkalóðir.

Þá verður salti dreift á götur og gangstéttir Kópavogsbæjar í dag og næstu daga vegna hálku en sandur var borinn á götur bæjarins á laugardag. Byrjað verður á því í dag að salta aðalleiðir en síðan verður farið í íbúagötur.

Stefnt er að því að sem flestar götur bæjarins verði saltaðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×