Innlent

Aukin "atvinnumennska“ einkennir framleiðslu fíkniefna hér á landi

Frá aðgerðum lögreglunnar í Hafnarfirði þegar amfetamínverksmiðjan fannst.
Frá aðgerðum lögreglunnar í Hafnarfirði þegar amfetamínverksmiðjan fannst.
Vísbendingar um umfang fíkniefnaframleiðslu hér á landi hafa orðið til þess að vekja grunsemdir um að hluti framleiðslunnar kunni að vera fluttur úr landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hættumati greiningadeildar ríkislögreglustjóra og var birt í dag.

Þar kemur fram að upplýsingar benda til þess að aukin „atvinnumennska" einkenni bæði innflutning og framleiðslu fíkniefna hér á landi.

Grunur um útflutning vaknaði fyrst árið 2008 þegar lögregla upprætti mjög afkastamikla amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði.

Umfang þeirrar kannabisræktunar sem lögregla hefur stöðvað á síðustu þremur árum kann að vera slíkt að ástæða sé til að álykta að hluti framleiðslunnar sé fluttur úr landi.

Tekið er fram í skýrslunni að um þetta skortir embættið enn upplýsingar. Vert er á hinn bóginn að benda á að reynist það rétt að fíkniefni séu framleidd til útflutnings hér á landi verða afleiðingar þess margvíslegar.

Íslendingar munu standa frammi fyrir kröfum um snörp viðbrögð og herta löggæslu og útflutningur frá landinu mun vafalaust, í einhverjum tilvikum hið minnsta, verða færður upp um áhættuflokka í viðtökuríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×