Innlent

Svört álitsgerð LEX sýnir fram á fjöldagjaldþrot

Höskuldur Kári Schram skrifar
Í álitsgerðum lögmannsstofunnar LEX og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte kemur fram að frumvörpin leiði til fjöldagjaldþrota og brjóti gegn stjórnarskránni.

Álitsgerðirnar voru unnar fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna sem hefur ásamt Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum atvinnulífsins sent atvinnuveganefnd Alþingis sameiginlega umsögn um kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Samtökin eru í öllum aðalatriðum ósammála efni frumvarpanna og leggja til að þau nái ekki fram að ganga. Samtökin telja ennfremur að frumvörpin muni kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og færa umhverfi íslensks sjávarútvegs áratugi aftur í tímann.

Í álitsgerð endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte er talið að hækkun veiðigjalds muni leiða til fjöldagjaldþrota innan greinarinnar. Af sjötíu og fimm sjávarútvegsfyrirtækjum sem álitsgerðin lagði mat á verða fimmtíu og þrjú gjaldþrota ef frumvörpin ná fram að ganga. Þar á meðal eru fyrirtæki á borð við Skinney Þinganes, Rammi ehf og Hraðfrystihúsið Gunnvör.

Í álitsgerð LEX lögmannsstofu er talið að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskránni. - þar segir meðal annars að fyrirliggjandi frumvörp skerði atvinnuréttindi núverandi handhafa aflaheimilda með ótvíræðum hætti og þá þannig að það fái ekki staðist eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Atvinnuveganefnd Alþingis mun væntanlega ljúka umfjöllun um frumvörpin í byrjun næsta mánaðar en talið er líklegt að þau taki þó nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×