Enski boltinn

United náði fimm stiga forskoti á ný eftir sigur á Aston Villa

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United var ekki í neinum vandræðum með Aston Villa á Old Trafford í dag en heimamenn unnu leikinn örugglega, 4-0. Wayne Rooney skoraði tvö mörk fyrir United. Danny Welbeck og Nani gerðu sitt markið hvor.

Leikurinn fór virkilega vel af stað fyrir Manchester United en liðið fékk dæmda vítaspyrnu strax í upphafi leiksins. Varnarmaður virtist brjóta á Ashley Young innan vítateigs og Mark Halsley, dómari leiksins, benti á vítapunktinn. Það sást síðan í endursýningum að snertingin var ekki mikil og dómurinn nokkuð tæpur.

Wayne Rooney fór á punktinn og þrumaði knettinum í netið, alveg óverjandi fyrir Shay Given í marki Aston Villa.

Manchester United tók öll völd á vellinum eftir markið og Aston Villa komst lítið í snertingu við boltann. Þegar fyrri hálfleiknum var alveg að ljúka skoraði Danny Welbeck annað mark United og staðan því 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum voru yfirburðir United algerir og Aston Villa átti í raun aldrei möguleika. Þriðja mark leiksins kom þegar um tuttugu mínútu voru til leiksloka en þá skoraði Wayne Rooney sitt annað mark í leiknum eftir frábæra sendingu frá Antonio Valencia.

Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Nani fjórða mark United  og kórónaði frábæran dag heimamanna.

Leiknum lauk með öruggum 4-0 sigri Manchester United og eru Englandsmeistararnir því aftur komnir með fimm stiga forskot á Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×