Innlent

Búist við hríðarveðri seint í kvöld

Ábendingar frá veðurfræðingi fyrir kvöldið og nóttina.

Það hvessir af suðri seint í köld og hlýnar heldur. Á hæstu fjallvegum um landið vestanvert er búist við hríðarveðri frá því seint í kvöld og nótt, en slyddu og rigningu í byggð - og eins norðanlands með morgninum. Á norðanverðu Snæfellsnesi er spáð byljóttum vindi í nótt og hviðum allt að 30-35 m/s.

Færð og aðstæður:

Hálkublettir eru víða á Suðurlandi og sumstaðar hálka. Snjóþekja er á Lyngdalsheiði.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi en á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja víðast hvar. Steingrímsfjarðarheiði er þungfær og ófært er yfir Þröskulda. Þæfingsfærð er bæði á Klettshálsi og Ennishálsi.

Það er hálka í Vestur-Húnavatnssýslu en annars eru aðalleiðir á Norðurlandi að miklu leyti auðar, helst að hálkublettir séu á fjallvegum.

Hálkublettir eru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en vegir á Austurlandi og Suðausturlandi eru víðast hvar auðir. Hálkublettir eru á Öxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×