Lífið

Skiptir um lífsstíl og stefnir á víkingaform

Damon Younger hyggst taka upp heilbrigðari lífsstíl fyrir hlutverk í víkingamynd.
Damon Younger hyggst taka upp heilbrigðari lífsstíl fyrir hlutverk í víkingamynd. Mynd/tomas pape
„Næstu mánuðir verða teknir í líkamsræktarstöðinni,“ segir leikarinn Damon Younger sem stefnir á að taka upp heilbrigðari lífsstíl til að koma sér í form fyrir tökur á fransk-íslenskri stuttmynd.

Tvær stuttmyndir eru á dagskrá hjá Damon á næstunni og er þeim báðum leikstýrt af konum. Myndin Leitin að Livingstone sem er leikstýrt af Veru Sölvadóttur og skrifuð af henni og Þresti Leó. Hún fer í tökur í lok ágúst og fjallar um tvo menn sem lenda í óvæntri vegferð. Fransk-íslenska myndin Conquest sem leikstýrt er af Magali Magistry fer svo í tökur fljótlega þar á eftir. Sú mynd fjallar um tvo víkinga sem flytjast inn í nútímann og það hvernig samskipti þeirra breytast. Damon hyggst því koma sér í víkingaform fyrir tökur á myndinni. „Ég ætla að skella mér í ketilbjöllur og er að spá í að fara að æfa hjá Mjölni,“ segir hann en Mjölnismenn þjálfuðu hann fyrir bardagasenurnar í myndinni Svartur á leik. „Ég var alltaf að spyrja þá hvort ég liti nógu vel út til að vera svona hættulegur og þeir sögðu að ég gerði það,“ segir hann og hlær. Aðspurður hvort hann ætli að taka átakið alla leið með því að breyta mataræðinu og taka upp heilbrigðari lífsstíl í leiðinni segir hann það líklegt. „Maður þarf að vera fókuseraður í því sem maður gerir. Ég er ekki vanur að klikka á því.“

Damon er nýlentur aftur á klakanum eftir að hafa skotist yfir til Danmerkur og leikið í stuttmyndinni Mod Naturen. „Hún Stína Michelsen vinkona mín er annar höfundur myndarinnar. Hún hringdi í mig og bað mig að koma yfir í nokkra daga til að leika fullkominn mann, á dönsku. Ég flissaði bara eins og smástelpa og spurði hvort henni væri alvara,“ segir Damon og bætir við að það hafi verið furðulegt að leika á tungumáli sem hann skilur ekki vel. „Ég tala enga dönsku, en það var gott fólk þarna sem hjálpaði mér og einn íslenskur tökumaður. Ég er með skóladönskuna svo ég skildi handritið að mestu og svo redduðum við þessu með því að breyta handritinu aðeins og ég lék Íslending að tala dönsku,“ segir hann.

Verslunarmannahelgin verður hin rólegasta hjá leikaranum, en hann hyggst njóta lífsins á mótorhjóli í Hvalfirðinum með myndavélina og vin sinn Tomma með í för. „Við ætlum bara að fara út að leika í mótorhjólagallanum,“ segir hann að lokum. tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.