Lífið

Dreymir um þriðju myndina um Stellu

Edda er betur þekkt sem Stella í orlofi. Fjórðungur þjóðarinnar horfði á samnefnda mynd fyrir skemmstu og þar á meðal Edda sjálf í svokölluðu Stellupartíi.
Edda er betur þekkt sem Stella í orlofi. Fjórðungur þjóðarinnar horfði á samnefnda mynd fyrir skemmstu og þar á meðal Edda sjálf í svokölluðu Stellupartíi.
„Í alvöru?“ spyr Edda Björgvinsdóttir leikkona þegar henni er tjáð að fjórðungur þjóðarinnar hafi horft á hana fara á kostum í gamanmyndinni Stellu í orlofi sunnudaginn 29. júlí á RÚV samkvæmt fjölmiðlakönnun Capacent Gallup. Kvikmyndin er frá árinu 1986 og er óhætt að segja að hún eigi sérstakan stað í hjörtum landsmanna.

Edda nýtti tækifærið og horfði á myndina í fyrsta sinn í svokölluðu Stellupartíi. „Þetta er held ég í fyrsta skipti sem ég sé hana í tuttugu ár og ég horfði ekki bara á hana heldur var ég í partíi og vinkona mín á Bolungarvík bauð öllum Stellum sem hún náði í og fullt af vinum og ættingjum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef fengið að taka þátt í Stellupartíi með poppi og kóki,“ segir hún eldhress að vanda. „Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég hef oft öfundað fólk sem segist halda Stellupartí reglulega. Ég heyri líka oft um heilu Stelluleikina og Stelluklúbbana og fæ bara tár í augun mér finnst þetta svo dásamlegt.“ En hvernig fannst fólkinu að horfa á ærslaganginn við hlið sjálfrar Stellu? „Ég held að þeim hafi fundist það alveg extra fyndið,“ svarar hún hlæjandi.

En er von á þriðju myndinni um Stellu? „Það er innsta þrá mín að Stella og Salómon gerist fararstjórar á sólarströnd með ellilífeyrisþega. Það þætti mér dásamlegt og þar sem ég hef verið fararstjóri á ég svo margar hugmyndir og grín í þessa mynd og nú bið ég til Guðs að þau sem framleiddu myndirnar drífi í þessu,“ segir hún og bætir við að ungir krakkar kalli hana sí og æ nafninu Stella sama hve oft foreldrar þeirra leiðrétti þau.-hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.