Fótbolti

Japanir verða með í Suður-Ameríkukeppninni eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Japanir eru Asíumeistarar.
Japanir eru Asíumeistarar. Mynd/AFP
Japanska fótboltalandsliðið verður með í Suður-Ameríkukeppninni sem fram fer í Argentínu í sumar en Japanir höfðu áður hætt við þátttöku vegna jarðskjálftans og flóðbylgjunnar heima fyrir sem kostuðu þúsundir manns lífið í síðasta mánuði.

Forráðamenn keppninnar skoruðu á japanska sambandið að endurskoða ákvörðun sína sem þeir gerðu enda telja margir að þátttaka japanska fótboltalandsliðsins í keppninni geti hjálpað að lyfta anda þjóðarinnar á mjög erfiðum tímum.

Japan er núverandi Asíumeistari og er gestalið í keppninni alveg eins og Mexíkó. Heims- og Evrópumeisturum Spánar var boðið að taka sæti Japans en Spánverjarnir afþökkuðu boðið.

Japanska sambandið mun nú fara í það að fá leikmenn lausa í keppnina sem spila með liðum í Evrópu. Keppnin fer fram frá 1. til 24. júlí.

Japanir eru í riðli með Argentínu, Kólumbíu og Bólivíu en Brasilíumenn eru síðan í riðli með Paragvæ, Ekvador og Venesúela. Í þriðja og síðasta riðlinum eru síðan Úrúgvæ, Síle, Mexíkó og Perú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×