Innlent

Með áverka á baki eftir eggvopn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atvikið átti sér stað í Vestmannaeyjum.
Atvikið átti sér stað í Vestmannaeyjum. mynd/ Óskar.
Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu í Vestmannaeyjum um helgina og er önnur þeirra sýnu alvarlegri en hin. Hún átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins í heimahúsi. Þar lenti maður í átökum við húsráðanda og fengu báðir áverka í andlit eftir átökin. Auk þess var sá sem var gestkomandi með sár á baki sem talin eru eftir egghvasst áhald. Ekki var um djúp sár að ræða en maðurinn þurfti að leita aðstoðar læknis til að loka sárinu. Við rannsókn málsins viðurkenndi aðili sem þarna var að hafa valdið manninum þessum áverkum á bakinu. Lögreglan segir að málið sé að mestu upplýst.

Hin árásin átti sér stað að morgni sl. laugardags fyrir utan veitingastaðinn Lundann þar sem kona sem þar var fyrir utan kastaði bjórglasi í andlit manns sem hafi verið að angra hana. Glasið brotnaði við að lenda í andliti mannsins og skarst hann í andlitinu. Konan viðurkenndi verknaðinn og telst það mál einnig að mestu upplýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×