Innlent

Syngur lag í minningu föður sins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það ríkir mikil eftirvænting fyrir nýju lagi sem Eivør Pálsdóttir hefur samið.
Það ríkir mikil eftirvænting fyrir nýju lagi sem Eivør Pálsdóttir hefur samið.
Söngkonan Eivør Pálsdóttir mun syngja nýtt jólalag á árlegum Jólasöngum Langholtskirkju sem fram fara um helgina. Lagið syngur hún í minningu föður síns sem lést á árinu. „Og raunar allra sem við söknum sérstaklega á jólunum, þeirra sem eru ekki með okkur lengur," segir Jón Stefánsson kórstjóri sem var einmitt á leið á æfingu með Graduelakór Langholtskirkju til að æfa nýjustu útsetninguna á laginu. „Svo kemur hún sjálf á morgun og þá erum við með æfingu með hljómsveit og öllu," segir Jón.

Eivör útsetur nýja lagið að mestu leyti sjálf, en nýtur jafnframt aðstoðar kærasta síns sem er tónskáld og heitir Tróndur Bogason. Jón segir að Eivör hafi dreymt nýja jólalagið og útsetningin hafi síðan orðið til þegar hún var gestkomandi hjá þeim hjónum Jóni og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur þegar hún var að syngja á Frostrósum um daginn.

Þótt mikil eftirvænting ríki vegna nýja jólalagsins er kjarninn í tónleikum Langholtskirkjukórsins þó gömlu góðu jólalögin sem Kór Langholtskirkju og Gradúelakórinn syngja. Að auki mun Táknmálskórinn koma fram. Einsöngvarar, auk Eivør verða svo Andri Björn Róbertsson, Guðrún Matthildur Sigurbergsdóttir og Ólöf Kolbrún Harðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×