Fótbolti

Markvörður meiddist illa við að fagna sigurmarki sínu - frá í sex mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi mynd tengist þessari frétt ekki neitt.
Þessi mynd tengist þessari frétt ekki neitt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það var stutt á milli sigurs og sársauka hjá Saulo, markverði brasilíska liðsins Sport Recife, í leik liðsins á mánudagkvöldið. Saulo sleit nefnilega krossbönd þegar hann fagnaði sigurmarki sínu í leiknum.

Staðan var 1-1 í leik Sport Recife og Vitoria þegar það var komið fram á lokamínútu leiksins. Sport Recife fékk þá horn, Saulo hljóp fram og skoraði með laglegum skalla.

Það vildi ekki betur til þegar hann fagnaði markinu að hann sleit krossbandið þegar hann hljóp af stað. Saulo hné niður og hélt um hnéið sitt áður en félagar hans náðu til hans til að fagna þessu mikilvæga marki með honum. Eftir rannsóknir í dag kom í ljós að Saulo er með slitin krossbönd og verður frá í sex mánuði.

Saulo er í raun varamarkvörður liðsins og leysti af aðalmarkvörðinn Magrao sem var meiddur. Þegar Saulo meiddist síðan í fagnaðarlátunum þá var Sport Recife búið með allar þrjár skiptingarnar og liðið kláraði því leikinn með útispilara í markinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×