Innlent

Glæpatíðni langhæst í Eyjum

Mynd/Óskar Friðriksson
Vestmannaeyjar eiga met í skráðum lögbrotum á síðasta ári. Miðað við íbúatölu hefur lögreglan í Vestmannaeyjum sinnt flestum líkamsárásarmálum, fíkniefnabrotum, áfengislagabrotum og brotum gegn valdstjórninni, af öllum umdæmum landsins.

Þá eru Eyjar með næstmesta fjölda kynferðisbrota, eignaspjalla og skjalafölsunarbrota. Fjöldi umferðarlagabrota í Eyjum er þó með því lægsta sem gerist. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár.

Í skýrslunni segir að líkt og árið 2009 hafi flest brot verið skráð í Vestmannaeyjum, eða 276 á hverja 10.000 íbúa, sem er fjölgun úr 230.

Tilteknir atburðir, svo sem bæjarhátíðir og samkomur um verslunarmannahelgar, geti haft áhrif á fjölda brota.

Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum, segir Þjóðhátíð vissulega eiga hlut að máli, en hún skýri þó ekki allt. „Við erum alltaf efstir og höfum verið alveg frá því ég man," segir hann. „Ég veit ekki af hverju. Þetta ætti að vera jafnmikið annars staðar, en svo er það nú ekki. Þetta hefur alltaf verið svona, við erum langt fyrir ofan alla aðra."

Yfir 60 ákærur hafa verið lagðar fram í Vestmannaeyjum á þessu ári, flestar vegna líkamsárása, fíkniefnabrota og kynferðisbrota. Einnig hefur akstur undir áhrifum fíkniefna aukist gríðarlega síðustu ár.

„Fíkniefnabrotin eru flest yfir Þjóðhátíð en líkamsárásir eru jafnt yfir árið. Kynferðisbrotin sem hafa verið hér voru alvarleg og ljót, og það er agalegt," segir sýslumaðurinn. Karl Gauti segir að auk Þjóðhátíðar geti sífelldur ferðamannastraumur og verbúðarvinna útskýrt háa brotatíðni í bæjarfélaginu.

„Hér er mikið af aðkomufólki við vinnu sem er einsamalt og laust við. Þá eru margar áhafnir á sjó sem koma hér í land," segir hann og bætir við að Vestmannaeyjabær sé vinsæll skemmtanastaður, ólíkt öðrum bæjum nálægt Reykjavík.

„Þetta er öðruvísi samsetning á samfélagi en víða annars staðar," segir hann. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×