Innlent

Opna fimm kafla og loka fjórum í dag

Stefán Haukur Jóhannesson og Össur skaprhéðinsson Aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum við ESB og utanríkisráðherra.
Stefán Haukur Jóhannesson og Össur skaprhéðinsson Aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum við ESB og utanríkisráðherra. Fréttablaðið/GVA
Fimm samningskaflar verða opnaðir á þriðju ríkjaráðstefnu í samningaviðræðum Íslands og ESB sem haldin er í Brussel í dag.

Kaflarnir sem opnaðir verða í dag eru um félagarétt, atvinnu- og iðnstefnu, evrópsk samgöngunet, framlagsmál og um réttarvörslu og grundvallarréttindi. Gert er ráð fyrir að fjórum af þessum köflum verði lokað á saman fundi. Aðeins framlagakaflinn verður áfram opinn. Honum er jafnan lokað þegar samningsniðurstaða í öllum öðrum köflum liggur fyrir. Eftir daginn í dag hafa verið opnaðir alls ellefu af þeim 33 köflum sem eru til umfjöllunar og átta verið lokað. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra leiðir íslensku sendinefndina í dag.

Kaflinn um réttarvörslu og grundvallarréttindi er sá fyrsti sem er opnaður og ekki er hluti af EES-samningnum. Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, segir kaflanum verða lokað samdægurs. Það helgist meðal annars af því að Ísland sé aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum alþjóðasáttmálum á sviði mannréttinda. Þessi kafli hafi reynst öðrum umsóknarríkjum, nú síðast Króatíu, þungur fyrir fæti og mikið reynt á.

„Að við skulum ljúka þessum kafla svo fljótt í ferlinu, og á sama degi og hann er opnaður, endurspeglar því hve nærri Ísland stendur Evrópu í mörgu tilliti,“ segir aðalsamningamaður Íslands.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×