Innlent

Rannsaka aðbúnað fatlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra.
Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að rannsaka aðbúnað fatlaðra barna sem vistuð hafa verið á vegum hins opinbera. Kannað verður hvort börnin hafi búið við ofbeldi eða sætt illri meðferð meðan á vistun á stofnunum stóð.

Jóhanna segir að beiðni hafi legið fyrir frá Þroskahjálp um slíka rannsókn. Aðbúnaður þeirra sem voru í Heyrnleysingjaskólanum hefur verið kannaður, en ekki hefur farið fram almenn rannsókn varðandi fötluð börn í opinberri vist.

„Þeirra aðstæður verða skoðaðar með sambærilegum hætti og barna sem vistuð voru á öðrum stofnunum. Kannað verður hvort þau hafi orðið fyrir ofbeldi meðan á vistuninni stóð,“ segir Jóhanna.

Hún segir rannsóknina falla undir lög um sanngirnisbætur ef í ljós komi að fötluð börn hafi sætt ofbeldi eða illri meðferð, en það sé sýslumanns, samkvæmt þeim lögum, að meta um rétt til bóta. Það fellur undir sama hatt og með aðrar sanngirnisbætur.

Áfangaskýrsla vistheimilisnefndar var rædd í ríkisstjórn í gær, en niðurstöður hennar voru kunnar í vikunni. Ályktað var að á nokkrum velferðarheimilum sem heyrðu undir Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins hefði verið um illa meðferð og ofbeldi á börnum að ræða en öðrum ekki.

Jóhanna segir að velferðarráðherra hafi verið falið að taka sérstaklega til umfjöllunar sveitaheimili undir opinberu eftirliti, sumardvalaheimili, umönnunarheimili og fósturheimili.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×