Innlent

Gefandi reynsla að vinna með íslenskum ljósmyndurum

Celina Lunsford Lunsford, sem hélt fyrirlestur hér á landi á dögunum, heldur hér á bókinni Nýrri náttúru.
Celina Lunsford Lunsford, sem hélt fyrirlestur hér á landi á dögunum, heldur hér á bókinni Nýrri náttúru. fréttablaðið/Valli
„Þetta er örugglega ekki síðasta verkefnið sem ég vinn með íslenskum ljósmyndurum,“ segir Celina Lunsford ljósmyndafræðingur. Celina var myndritstjóri ljósmyndabókarinnar Ný náttúra sem kom út hjá forlaginu Crymogeu í haust. „Þetta hefur verið afar gefandi reynsla og komið mér í samband við marga íslenska ljósmyndara.“

Bókin kom út í tengslum við sýningu á verkum íslenskra samtímaljósmyndara, Frontiers of Another Nature, sem haldin var í Frankfurt í haust. Þess má geta að hún er að fara í dreifingu í Bandaríkjunum og er að sögn útgefanda verið að skoða möguleika á dreifingu á Norðurlöndum, í Frakkalandi og Bretlandi. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá fólki sem við höfum sent bókina.“

Manngerð náttúra er viðfangsefni bókarinnar, hún segir sögu íslenskrar landslagsljósmyndunar en gerir það á óvæntan hátt. Tveimur myndum er stillt saman á hverri opnu, yfirleitt sín úr hvorri áttinni.

„Mig langaði til þess að vekja forvitni lesenda. Og þó að myndirnar virki ólíkar í fyrstu, þá er eitthvað í myndbyggingunni sem tengir þær saman, og iðulega í umfjöllunarefni þeirra – þannig tala myndirnar saman.“

Í bókinni eru bæði nýjar og gamlar ljósmyndir og Lunsford segir það hafa komið sér ánægjulega á óvart hversu margir áhugaverðir íslenskir ljósmyndarar séu starfandi. Spurð hvort þeir hafi einhverja sérstöðu segir hún það liðna tíð að þjóðerni setji afgerandi mark á ljósmyndara.

„Ljósmyndir fara svo víða í dag, ljósmyndarar geta svo auðveldlega kynnt sér verk kollega sinna í öðrum löndum í gegnum netið að það er af sem áður var þegar auðvelt var að þekkja franskar ljósmyndir frá bandarískum. Hins vegar hafa einstakir ljósmyndarar oft skýr einkenni og mikil áhrif. Ragnar Axelsson, Raxi, hefur til dæmis haft mikil áhrif með myndum sínum af norðurslóðum,“ segir Lunsford að lokum. -sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×