Innlent

Von um markvissari lausn á ADHD

Rannsókn vísindamanna gefur til kynna að erfðafræðilegir þættir liggi að baki ADHD. Fréttablaðið/AAA
Rannsókn vísindamanna gefur til kynna að erfðafræðilegir þættir liggi að baki ADHD. Fréttablaðið/AAA
Erfðabreytileiki í boðleiðum í heila virðist tengjast athyglisbresti og ofvirkni (ADHD), að því er fram kemur í nýrri rannsókn vísindamanna á Barnaháskólasjúkrahúsinu í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Uppgötvunin gefur von um að hægt verði að þróa markvissari meðferð við sjúkdómnum.

Íslendingurinn Hákon Hákonarson fór fyrir rannsókninni, sem birtist í vikunni á vefútgáfu tímaritsins Nature Genetics.

Rannsóknin gefur til kynna að meðhöndla megi ADHD með því að einbeita sér að þessum erfðabreytileika, sem fundist hefur í tíu prósentum ADHD-sjúklinga.

Það gæti boðað nýjar lausnir í meðhöndlun þeirra ADHD-sjúklinga sem hafa þessa breytileika. Hákon segir í fréttatilkynningu að minnst tíu prósent þátttakenda í rannsókninni falli í þann hóp.

Josephine Elia, meðhöfundur rannsóknarinnar, segir að þúsundir erfðavísa gætu orsakað ADHD, en að ná að einangra erfðamengi fyrir tíu prósent sjúklinga væri verulegt afrek. Rannsóknarhópur Hákonar er þegar byrjaður að þróa fyrsta lyfið til að meðhöndla ADHD-sjúklinga með þennan erfðabreytileika og reiknar Hákon með að byrja að gefa sjúklingum lyfið strax á næsta ári.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×