Innlent

Maður í hlaupagalla stal tölvu á Hlöðunni

Anna Guðný segist ekki ætla að kæra þjófnaðinn verði tölvunni skilað á Þjóðarbókhlöðuna fyrir helgi. fréttablaðið/stefán
Anna Guðný segist ekki ætla að kæra þjófnaðinn verði tölvunni skilað á Þjóðarbókhlöðuna fyrir helgi. fréttablaðið/stefán
„Hann var um sjötugt, í fjólubláum jogginggalla, með svartan bakpoka og grátt hár. Hann sést mjög vel á upptökunni,“ segir Anna Guðbjörg Bjarnadóttir, 22 ára lögfræðinemi við Háskóla Íslands. Tveimur fartölvum hefur verið stolið af Önnu á Þjóðarbókhlöðunni á síðustu þremur mánuðum. Tjónið hleypur á hundruðum þúsunda, en tölvurnar voru báðar af gerðinni MacBook.

Fyrri tölvunni var stolið af skrifborði Önnu fyrir um þremur mánuðum þegar hún brá sér frá í hádegismat. Engar myndavélar vöktuðu svæðið. Seinni tölvunni var stolið á sunnudaginn síðastliðinn þegar hún skildi hana eftir á hillu á neðstu hæð Þjóðarbókhlöðunnar á meðan hún skrapp út fyrir með vinkonum sínum. Anna skildi við tölvuna þar í nokkrar mínútur og þegar hún kom til baka var hún horfin.

Öryggismyndavél náði þjófnum á mynd og að sögn Önnu sést þar eldri maður í hlaupagalla sem kemur inn í bygginguna, lítur í myndavélina, gengur að horninu þar sem tölvan var geymd og gengur út. „Ég var komin hálfri mínútu eftir að hann tók hana en ég var í svo miklu panikki að ég áttaði mig ekki á því að líta út eftir þjófnum,“ segir Anna.

Ólafur Guðnason, húsvörður í Þjóðarbókhlöðunni, segir allt of mikið um þjófnaði á svæðinu. Þrátt fyrir öryggismyndavélar og viðvaranir sé allt of algengt að nemendur skilji eigur sínar eftir eftirlitslausar. Í seinna tilviki Önnu hafi þjófurinn vissulega náðst á mynd en ekki sé hægt að sýna myndbandið opinberlega sökum persónuverndarlaga.

„Ég mundi gjarnan vilja sýna upptökuna en mér er bara ekki heimilt að gera það,“ segir Ólafur. Hann segir það hafa gerst að fólk komi inn í bygginguna gagngert til þess að stela. „Því miður er allt of mikið um þetta,“ segir hann. „Ein tölva er of mikið þar sem oft eru heilu ritgerðirnar þar inn á. Svona atburðir eru vissulega ólán.“

Anna segist ekki ætla að kæra þjófnaðinn, verði tölvunni skilað á Þjóðarbókhlöðuna fyrir helgi. Hún heitir þeim sem finnur tölvuna fundarlaunum. „Ég er búin að tapa tveimur tölvum, með öllum glósunum mínum og námsefni,“ segir Anna. „Sú seinni er glæný og kostaði tvö hundruð þúsund krónur. Ég mun gera allt til að fá hana aftur.“

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×