Lífið

Jónsi samdi lag með Cameron Crowe

Jónsi er mjög ánægður með samstarf sitt og Cameron Crowe en íslenski tónlistamaðurinn samdi tónlistina í kvikmyndinni We Bought a Zoo sem leikstjórinn gerir með þeim Matt Damon og Scarlett Johansson í aðalhlutverkum. Leikurum myndarinnar var skipað að hlusta á Jónsa og Sigur Rós og horfa á heimildarmyndina Heima til að upplifa það andrúmsloft sem átti að ríkja í myndinni. Fréttablaðið/GVA
Jónsi er mjög ánægður með samstarf sitt og Cameron Crowe en íslenski tónlistamaðurinn samdi tónlistina í kvikmyndinni We Bought a Zoo sem leikstjórinn gerir með þeim Matt Damon og Scarlett Johansson í aðalhlutverkum. Leikurum myndarinnar var skipað að hlusta á Jónsa og Sigur Rós og horfa á heimildarmyndina Heima til að upplifa það andrúmsloft sem átti að ríkja í myndinni. Fréttablaðið/GVA
„Það er gaman að vinna með fólki sem maður hefur ekki unnið með áður, það er mikil ögrun," segir Jón Þór Birgisson, best þekktur sem Jónsi úr Sigur Rós.

Bandaríski leikstjórinn Cameron Crowe nýtir þessa dagana hvert tækifæri til að hæla íslenska tónlistarmanninum en Jónsi semur svokallað „Score" við nýjustu kvikmynd leikstjórans, We Bought a Zoo. Hann samdi auk þess lögin Ævin endar og Gathering Stories fyrir myndina en það síðarnefnda var samstarfsverkefni hans og leikstjórans. Diskur með tónlistinni er væntanlegur í allar betri plötubúðir 13. desember en myndin sjálf verður frumsýnd um jólin.

Cameron hefur gert mikið úr samstarfinu við Jónsi í viðtölum að undanförnu. Hann lét leikara myndarinnar hlusta á sólóplötu Jónsa og plötur Sigur Rósar og skipaði þeim að horfa á heimildarmyndina Heima, þar væri sú stemning sem hann vildi koma til skila á hvíta tjaldinu. Meðal þeirra sem leika í myndinni eru stórstjörnurnar Matt Damon og Scarlett Johansson.

„Samstarfið hófst þannig að ég var að horfa á Almost Famous eftir Cameron [Crowe] heima hjá mér og mundi þá hvað hún var frábær," segir Jónsi en hann var staddur í London þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Við höfum verið í tölvupóstsamskiptum frá því að Sigur Rós var með þrjú lög í Vanilla Sky og ég ákvað að senda honum bara línu. Hann hafði þá verið að hlusta á sólóplötuna mína og spurði mig hvort ég vildi semja tónlist við myndina sem hann væri að gera." Jónsi fékk handrit myndarinnar sent nánast samstundis, las það yfir og fannst það nokkuð skemmtilegt. „Ég fór síðan út til Los Angeles og var fastur inni í hljóðveri í mánuð frá tíu á morgnana til tíu á kvöldin. Það góða við kvikmyndatónlist er nefnilega að maður getur verið hvatvís og að maður hefur ekki allan tíma heimsins til að dúlla sér."

Þetta er í fyrsta skipti sem Jónsi tekst á við verkefni af þessu tagi og þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem Crowe notfærir sér tónlist á þennan hátt. „Það er rétt, hann hefur yfirleitt verið bara með svona „best off"-tónlist með þeim listamönnum sem hann er að hlusta á hverju sinni í sínum myndum. En við settumst bara niður, ákváðum að hafa fimm þemu og síðan bjó ég bara til tónlist við þau og hann lét hana undir myndina." Jónsi fór síðan fyrir skemmstu út til Los Angeles til að fylgjast með „mixinu" og sá þá myndina í heilu lagi. „Hún var mjög skemmtileg, svolítið hollywoodísk, en mjög skemmtileg." freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×