Lífið

Dúkkulísur á Innipúkanum

Dúkkulísur ætla að spila á Innipúkanum um verslunarmannahelgina. Þær fagna þrjátíu ára afmæli sínu á næsta ári.
Dúkkulísur ætla að spila á Innipúkanum um verslunarmannahelgina. Þær fagna þrjátíu ára afmæli sínu á næsta ári.
„Við verðum þrítugar á næsta ári svo þetta er eins konar upphitun fyrir stórafmælið,“ segir Erla Sigríður Ragnarsdóttir, söngkona Dúkkulísanna.

Hljómsveitin góðkunna ætlar að koma fram á Innipúkanum um verslunarmannahelgina. „Það er nú oft mikið mál þegar við hittumst. Tvær okkar búa á Egilsstöðum og ein í Grindavík, svo það þarf að hóa þessu saman með miklum látum,“ segir Erla Sigríður.

Dúkkulísur voru stofnaðar á Egilsstöðum haustið 1983 og tóku þær þátt í hljómsveitarkeppni Atlavíkurhátíðarinnar árið 1984, þar sem þær lentu í öðru sæti. Sama ár unnu þær Músíktilraunir og kom fyrsta breiðskífa þeirra út árið 1985.

Dúkkulísur gáfu svo út aðra breiðskífu, áður en þær tóku sér hvíld árið 1987. Þær hafa þó komið saman við hin ýmsu tækifæri síðan, eða um einu sinni til tvisvar á ári.

Eins og áður kom fram, fagna Dúkkulísur þrjátíu ára afmæli sínu á næsta ári. Erla segir hljómsveitina vera með margar hugmyndir á lofti hvað varðar afmælisfögnuðinn. „Mest langar okkur að búa til bíómynd, það væri virkilega gaman. Annars langar okkur að halda útihátíð í Viðey, kjólauppboð og vinnubúðir fyrir kvennahljómsveitir, þar sem allar íslenskar kvennahljómsveitir fyrr og síðar myndu koma saman,“ segir Erla, og bætir við að allt verði þetta ákveðið að Innipúkanum loknum.

Innt eftir því hvort Dúkkulísur lumi á nýju efni fyrir komandi tónleika, svarar Erla því neitandi. „Ekki núna í ár, en á næsta ári. Ég lofa einu nýju lagi í tilefni afmælisins.“ - ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.