Lífið

Besta úr báðum heimum

Ástralarnir í Cut Copy spila á Nasa á miðvikudaginn og lofa mikilli stemningu.
Ástralarnir í Cut Copy spila á Nasa á miðvikudaginn og lofa mikilli stemningu.
Ástralska hljómsveitin Cut Copy heldur tónleika á Nasa á miðvikudag. Forsprakkinn Dan Whitford er mjög spenntur fyrir komunni til Íslands og lofar miklu stuði á dansgólfinu. Hljómsveitin Cut Copy frá Ástralíu spilar á Nasa á miðvikudaginn. Hún þykir frábær tónleikasveit og hefur komið fram á flestum helstu tónlistarhátíðum heims í sumar.

„Enginn okkar hefur komið til Íslands áður. Þetta verður frábært. Það segja allir að þetta sé fallegt land og við erum mjög spenntir að kíkja í heimsókn,“ segir forsprakkinn Dan Whitford.

Cut Copy spilar dansskotna popptónlist undir sterkum áhrifum frá tónlist níunda áratugarins. Sveitin hefur verið borin saman við jafn ólíka flytjendur og Kraftwerk, Roxy Music, Hot Chip og Franz Ferdinand. Sú síðastnefnda er einmitt meðal þeirra sveita sem hafa fengið Cut Copy til liðs við sig á tónleikaferðum sínum. Aðrar þekktar sveitir sem hafa túrað með Cut Copy eru Bloc Party og Daft Punk.

Hljómsveitin hefur verið dugleg að spila víðs vegar um heiminn á þessu ári til að fylgja eftir sinni þriðju plötu, Zonoscope, sem hefur fengið fínar viðtökur. „Við ljúkum ekki tónleikaferðinni fyrr en seint á árinu. Þá getum við farið heim og slappað af með vinum okkar og fjölskyldum. Annars er þetta mjög öfgakennt líferni. Annaðhvort erum við alltaf heima og lokaðir inni í hljóðveri, eða þá að við erum á ferðalagi í margar vikur eða mánuði í senn,“ segir Whitford.

Tíu ár eru liðin síðan Whitford byrjaði að prófa sig áfram undir nafninu Cut Copy en það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem hann fékk til liðs við sig fleiri meðlimi og hin eiginlega hljómsveit varð til. „Ég var í háskólanámi og þetta byrjaði sem hálfgert tómstundagaman heima hjá mér. Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur.“ Whitford lofar miklu stuði á tónleikunum á Nasa. „Mér finnst við vera heppnir að mörgu leyti. Við spilum danstónlist en lögin eru líka margslungin. Stundum finnst mér við bjóða upp á það besta úr báðum heimum. Fólkið getur sungið með lögunum okkar en það dansar líka og tekur fullan þátt í þeirri orku sem myndast á dansgólfinu,“ segir hann.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.