Lífið

Búa til spilatorg í miðbænum

Listaháskólanemarnir f.v Harpa, Guðrún og Katrín setja upp spilatorg á Bernhöftstorfunni sem opnar í dag.
fréttablaðið/pjetur
Listaháskólanemarnir f.v Harpa, Guðrún og Katrín setja upp spilatorg á Bernhöftstorfunni sem opnar í dag. fréttablaðið/pjetur
Listaháskólanemarnir Harpa Björnsdóttir, Guðrún Harðardóttir og Katrín Eyjólfsdóttir hleypa lífi í Bernhöftstorfuna, torgið fyrir neðan Lækjarbrekka, og bjóða landsmönnum að spila spil þar í sumar.

„Það er merkilegt hvað þetta torg hefur gleymst í gegnum tíðina en við viljum minna á hversu sjarmerandi staðurinn er. Hér er til dæmis alltaf logn og blíða,“ segir Harpa Björnsdóttir, nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands en á morgun ætlar hún, ásamt samnemanda sínum Guðrúnu Harðardóttur og myndlistarnemanum Katrínu Eyjólfsdóttur, að endurvekja gamla taflið á torginu fyrir neðan Lækjarbrekku, Bernhöftstorfunni.

„Við sóttum um verkefnið Torg í biðstöðu hjá Reykjavíkurborg. Um leið og við fengum úthlutað þessu torgi datt okkur í hug að endurvekja taflið, sem staðið hefur á þessum blett í mörg ár, og vinna út frá því eins konar spilatorg.“

Verkefnið Torg í borg var sett af stað á vegum Reykjavíkurborgar og gengur út á að finna tímabundnar lausnir til að lífvæða ákveðin almenningsrými í borginni. „Í kringum taflið erum við að búa til palla þar sem staðsett verða spil eins og Mylla, Bakkagammon og Lúdó. Ég vona að fólk nýti sér þetta en Lækjarbrekka verður með útisölu á drykkjarföngum nokkrar daga í sumar fyrir vegfarendur. Það ætti því ekkert að standa í vegi fyrir að fólk komi við á Bernhöftstorfunni og spili saman.“

Spilatorgið opnar í dag klukkan 14.00 og allir velkomnir að kíkja.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.