Lífið

Charlie Murphy segir sannar sögur í Hörpu

Bræður Charlie Murphy, til hægri á myndinni, ásamt litla bróður, leikaranum Eddie Murphy.
Bræður Charlie Murphy, til hægri á myndinni, ásamt litla bróður, leikaranum Eddie Murphy. nordicphotos/getty
„Charlie Murphy er mjög fyndinn sögumaður," segir Berang Shahrokni, verkefnastjóri hjá sænska afþreyingarfyrirtækinu Absimilis Entertainment.

Absimilis stendur fyrir komu grínistans Charlie Murphy til landsins, en hann treður upp í Hörpu laugardaginn 1. október. Murphy er stóri bróðir leikarans Eddie Murphy og var í fylgdarliði hans á árum áður.

Shahrokni sér um uppistandssýningar víða um Evrópu og hefur áður flutt grínista til Íslands. Hann var í föruneyti Pablo Francisco þegar hann tróð upp í Reykjavík í október á síðasta ári og segist hafa fundið fyrir miklum áhuga á bandarísku gríni hér á landi. „Mér fannst því góð hugmynd að flytja fleiri grínista til Íslands," segir hann og bætir við að hann hafi í hyggju að flytja inn stór nöfn til Íslands í framtíðinni.

Margir muna eftir Charlie Murphy úr grínþáttunum Chappelle Show, sem sýndir voru á Skjá einum fyrir nokkrum árum. Þar sagði hann meðal annars óborganlegar sannar sögur af tímanum í fylgdarliði bróður síns. Á meðal þeirra sem voru fyrirferðarmiklir í sögunum voru tónlistarmennirnir Rick James og Prince. Shahrokni segir Murphy vera einstakan sögumann og að sá hæfileiki leyni sér ekki í uppistandinu. „Sýningin hans er ólík sýningum annarra grínista. Hún er mjög lík þáttunum E! True Hollywood Stories, en bara miklu fyndnari."

Shahrokni segir að Ísland sé nú komið aftur á kortið hjá fyrirtæki hans, eftir óvissu sem skapaðist meðal annars í kjölfar efnahagshrunsins. Þá segir hann tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu hafa mikið að segja og að loksins sé kominn salur sem henti fullkomlega fyrir sýningar sem þessar. „Hingað til hefur ekki verið tónleikasalur í Reykjavík. Það hafa ekki verið margir salir sem virka fyrir listamennina okkar," segir hann. „Harpa er akkúrat það sem Reykjavík þarf á að halda, en ég vildi að þar væri líka fimm eða sex þúsund manna salur."

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.