Lífið

Fjarstýrir skemmtistað í Köben úr 101 Reykjavík

Dóra Takefusa er flutt heim til Íslands eftir fjögur ár í Kaupmannahöfn. Hún rekur áfram skemmtistaðinn Jolene.
Dóra Takefusa er flutt heim til Íslands eftir fjögur ár í Kaupmannahöfn. Hún rekur áfram skemmtistaðinn Jolene. Mynd/Stefán
„Það er æðislegt að vera komin heim," segir Dóra Takefusa, athafnakona og eigandi skemmtistaðarins Jolene í Kaupmannahöfn, en hún er flutt heim að nýju eftir fjögurra ára dvöl í Danmörku.

Dóra segir að meginástæða heimkomunnar hafi verið söknuðurinn eftir fjölskyldu og vinum. „Það var farið að toga í að koma heim. Það gekk rosalega vel í Danmörku og við höfðum það mjög gott þar, en stundum eru það bara fjölskyldan, vinirnir, vatnið og ferska loftið sem toga of fast í mann og það er þá sem maður kemur heim," segir Dóra, sem ætlar að halda áfram rekstri Jolene þótt hún búi hér. „Ég ætla að fjarstýra Jolene frá Íslandi. Öll mín vinna fer yfirleitt bara fram við tölvuna eða símann, svo það skiptir í raun og veru ekki máli hvort ég vinn í Nörrebro eða hér í 101 Reykjavík," segir Dóra, sem ætlar fyrst um sinn að fljúga út mánaðarlega og dvelja í Kaupmannahöfn nokkra daga í senn.

Um fjögur ár eru síðan Dóra flutti til Kaupmannahafnar og opnaði Jolene. Frá upphafi naut staðurinn mikilla vinsælda og var tilnefndur til ýmissa verðlauna þar ytra. „Á sínum tíma var mikil sprengja í þessum geira og allt var nýtt og öðruvísi. Þó svo að Jolene sé ekki gamall staður, þá er hann orðinn eins og Prikið og Kaffibarinn eru hér heima," segir Dóra og bætir við að í Danmörku sé það ekki algengt að skemmtistaðir eða barir haldi vinsældum eða stemningu til lengri tíma, svipað og gerist hér á landi.

Dóra segir það gott að vera komin aftur í ferska loftið. „Þetta er æðislegt. Ég er fegin að vera komin heim og að geta kælt mig niður. Sumrin í Danmörku eru heit og með svo miklum raka. Ferska loftið hér er yndislegt," segir Dóra sem kom til landsins á þriðjudag. „Núna ætlum við að fara í smá ferðalag út á land. Ætlum að koma við á Bestu útihátíðinni og fara svo á smá meira flakk."

kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.