Lífið

Hálfur milljarður í skemmtigarð í Smáralind

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Teikning af fyrirhuguðum skemmtigarði í Vetrargarði Smáralindar.
Teikning af fyrirhuguðum skemmtigarði í Vetrargarði Smáralindar.
Risavaxinn skemmtigarður rís nú í Vetrargarðinum í Smáralind. Garðurinn verður á tveimur hæðum og kostnaðurinn hleypur á hundruðum milljóna.

„Þarna verða leiktæki sem jafnast á við rússibanareið,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins.

Framkvæmdir að risavöxnum skemmtigarði í Vetrararði Smáralindar hefjast í næstu viku. Meira en 500 milljónum króna verður varið í verkefnið og stefnt er á að opna í haust. 

Eyþór segir að svona skemmtigarð vanti á Íslandi, en þá er að finna í fjölmörgum verslunarmiðstöðvum um allan heim.
Skemmtigarðurinn er hannaður af alþjóðlega hönnunarfyrirtækinu KCC, sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hönnun og uppbyggingu innanhússskemmtigarða. „Við völdum þetta fyrirtæki KCC sem þykir fremst á sínu sviði í dag. Þeir trúðu ekki að þetta húsnæði væri laust,“ segir Eyþór.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í rúm tvö ár og Eyþór hefur skoðað fjölmarga skemmtigarða í verslunarmiðstöðvum víða um heim. „Langflestar nýjar verslunarmiðstöðvar sem eru byggðar í dag eru með skemmtigarð,“ segir hann. „Þetta er risastór tækniveröld, með öllu því nýjasta sem er að finna í heimi afþreyingar.“

Byggt verður milligólf yfir Vetrargarðinn og verður Skemmtigarðurinn því rekinn á rúmlega 2.000 fermetra svæði á tveimur hæðum. 

Þetta er gríðarlegur kostnaður, hvernig er svona verkefni fjármagnað í kreppu?

„Með fjárfestum. Það eru sterkir íslenskir fjárfestar á bak við verkefnið.“

Vilja þeir láta nafns síns getið?

„Nei, en þetta er venjulegt íslenskt fjölskyldufólk.“

Eyþór segir alla aldurshópa geta fundið afþreyingu við sitt hæfi í skemmtigarðinum. „Á neðri hæðinni verður afþreying fyrir yngri kynslóðina og fjölskyldur og á efri hæðinni verður afþreying fyrir unga fólkið og fullorðna. Svo blandast þetta saman,“ segir Eyþór. „Það vantar svona skemmtigarð á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×